Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Reykjavík Geothermal, var fyrsti forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Orkuveitan var stofnuð árið 1999 með sameiningu Hitaveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Guðmundur segir sameininguna hafa verið stórt verkefni. Fyrirtækin tvö hafi verið ólík í uppbyggingu og hugsunarhætti.

"Orkuveitan var náttúrulega líka stofnuð til þess að vera drifkraftur í þjóðfélaginu, til að koma nýjum hlutum á. Það var mikill kraftur í því. Við hófum orkuframleiðslu – Orkuveitan fór úr því að vera eigandi í Landsvirkjun í það að vera næststærsti raforkuframleiðandi landsins," segir Guðmundur.

Ákvarðanir fyrir hrun orsökuðu ekki vandann

Aðspurður kannast Guðmundur ekki við það að fjárhagsvandræði Orkuveitunnar í kjölfar fjármálahrunsins hafi orsakast af slæmum ákvörðunum fyrir hrun.

"Stóru ákvarðanirnar voru að fara í fjárfestingar í virkjunum og ljósleiðarakerfinu. Það voru stóru breytingarnar, og það eru hvort tveggja, að því ég best veit, mjög arðbærar einingar sem standa undir sínu. Þegar ég yfirgef Orkuveituna þá voru engin merki þess að þar stefni í fjárhagsvandamál. EBITDA dugaði fyrir afgreiðslu á skuldum um ókomna framtíð, það eru engin hættumerki í því.

Það sem hins vegar gerist er það að menn taka ákvarðanir í hruninu um að halda áfram framkvæmdum, halda áfram fjárfestingum, hækka ekki verð og svo framvegis. Það var eflaust allt saman skiljanlegt á þeim tíma, en það er náttúrulega það sem ýtir Orkuveitunni út í vandræði. Ef Orkuveitan hefði bara haldið áfram sömu siglingu og hún var á, ekki fjárfest meira en svo að hún ætti fyrir greiðslum með EBITDA, hækkað verð í takt við verðbólgu og svo framvegis, þá hefði hún ekki lent í neinum vandræðum.

Bara það að hækka verð í samræmi við verðbólgu hugsa ég að hefði dugað. En það er mjög ríkt í pólitík að reyna að koma sökinni eitthvert annað.“

Ítarlegt viðtal við Guðmund er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .