Erfitt getur verið að setja á gjaldtöku að svæðum eins og Vatnajökulsþjóðgarði þar sem aðkomuleiðir eru margar. Þetta kemur fram í samantekt sem ráðgjafafyrirtækið Alta vann fyrir Ferðamálastofu.

Þar kemur fram að kostnaðarsamt geti verið að manna gjaldtökuhlið á svæðum þar sem aðkomuleiðir eru margar. Nefnd er hugmynd þar sem valdir eru tilteknir staðir þar sem raunhæft er að krefjast aðgangseyris með viðráðanlegum tilkostnaði. Það gæti þá boðið upp á ósamræmi við aðra staði sem eru áþekkir að öðru leyti.

Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun, hefur áður sagt í viðtali við VB Sjónvarp að gjaldtaka sé eina leiðin fyrir Íslendinga til að fá einhvern arð af náttúruverðmætum. Hann benti á svipað vandamál og sagði gjaldtöku auðveldari að svæðum eins og t.d. Landmannalaugum þar sem einungis ein leið er að svæðinu.