Skiptar skoðanir eru á meðal sérfræðinga um ákvörðun bandaríska seðlabankans um að lækka stýrivexti um fimmtíu punkta. Hlutabréfavísitölur hafa hækkað en að sama skapi benda önnur viðbrögð til vaxandi efasemda um horfurnar í bandaríska hagkerfinu: Verð á olíu og gulli hækkaði í kjölfar ákvörðunarinnar, auk þess sem þróunin á ávöxtunarkröfu skuldabréfa benti til ótta um vaxandi verðbólguþrýsting.

Bern Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, lét áhyggjur af því að verða fyrir sömu gagnrýni og forveri hans, Alan Greenspan, ekki hafa áhrif á sig. Hann var stundum sakaður um að vera vikapiltur Wall Street og lækka vexti of mikið til þess að skera fjárfesta úr snörunni þegar öldugangur gekk yfir markaði. Þrátt fyrir að hann hafi lækkað vexti meira en væntingar flestra gerðu ráð fyrir er allt á huldu með hvort að Bernanke hafi látið hagsmuni fjárfesta ráða för.

Fram kemur í frétt Wall Street Journal í gær að ákvörðunin sé til marks um að Bernanke meti að áhrif lausafjárþurrðarinnar, sem hófst í kjölfar hrunsins á markaðnum með bandarísk undirmálslán í sumar, kunni að verða alvarlegri og djúpstæðari fyrir hagkerfið en almennt hefur verið talið: Hann sé því að taka áhættuna á að gera hugsanlega of mikið frekar of lítið. Þrátt fyrir að ákvörðunin kunni að valda verðbólguþrýstingi sökum gengislækkunar Bandaríkjadals og hækkunar olíuverðs sé verðbólga skárri kostur en mögulegt samdráttarskeið í hagkerfinu.

Í tilkynningunni frá bandaríska seðlabankanum, sem var birt í kjölfar stýrivaxtaákvörðunarinnar á þriðjudag, kemur meðal annars fram að hækkandi fjármagnskostnaður í kjölfar lausafjárþurrðarinnar og óvissunnar á mörkuðum "kunni að magna upp leiðréttingarinnar á fasteignamarkaði og hamla hagvexti."

Rétt tímasetning?
Á vef tímaritsins The Economist er ákvörðunin sögð vera náskyld kenningum Frederic Mishkin, sem situr stjórn seðlabankans. Eins og kom fram í Viðskiptablaðinu í byrjun mánaðarins þá telur Mishkin að hægt sé að stemma stigu við neikvæðum áhrifum niðursveiflunnar á fasteignamarkaði á heildareftirspurn í hagkerfinu með því að auka peningamagn í umferð hraðar en Taylor-reglan leggur til. Sé þetta rétt þá vakna upp spurningar um hvort að vaxtaákvörðunin hafi verið tekin á réttum tíma. Svarið veltur meðal annars á því hvort að samdráttarskeið sé nú þegar hafið eða hvort að hugsanlegt vaxtalækkunarferli komi í veg fyrir slíkt.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.