Nafn Christine Lagarde var ritað í sögubækurnar þegar hún var skipuð fjármálaráðherra Frakklands í kjölfar enduruppstokkunar Nicolas Sarkozy, forseta, á ríkisstjórn landsins. Lagarde tekur við ráðherrastöðunni af Jean-Louis Borloo og verður hún fyrst kvenna til þess að gegna fjármálaráðherrastöðu í ríki sem tilheyrir sjö helstu iðnríkjum heims. Lagarde tók við embætti landbúnaðarráðherra þegar Sarkozy skipaði fyrsta ráðuneyti sitt í síðasta mánuði.

Ráðherrauppstokkunin var gerð í kjölfar þess að flokkur forsetans, UMP, fékk ekki jafn góða útkomu í þingkosningunum um helgina og vænst hafði verið. Margir hafa viljað rekja þá niðurstöðu til frammistöðu Borloo í kosningabaráttunni en hann afhjúpaði að til skoðunar væri hjá stjórnvöldum að grípa til fimm prósenta hækkunar á virðisaukaskatti. Varð þetta til þess að stuðningur jókst við Sósíalista en margir kjósendur óttast að til standi að velta skattbyrðinni frá atvinnurekendum til neytenda. Fram kemur í breska blaðinu Financial Times að ráðherrum ríkisstjórnarinnar hafi verið gert að ræða ekki þessi áform fyrr en á næsta ári en í síðustu viku hafi Boroo gert þau mistök að minnast á þau. Boroo mun þó halda ráðherrasæti og mun gegna stöðu umhverfis og innanríkisráðherra.

Skjótur frami
Lagarde er ríflega fimmtug og frami hennar í frönskum stjórnmálum hefur verið furðuskjótur. Hún gegndi fyrst ráðherraembætti árið 2005 þegar hún tók við embætti viðskiptaráðherra. Hins nýbakaða fjármálaráðherra bíða hinsvegar vandasöm verkefni og brýn úrlausnarefni. Lagarde mun hafa yfirumsjón að hrinda efnahagsumbótastefnu forsetans í framkvæmd. Franska hagkerfið hefur vaxið hægt undanfarin ár og er þjakað af viðvarandi atvinnuleysi. Áætlanir forsetans fela meðal annars í sér innleiðingu aukins frjálsræðis á vinnumarkaðslöggjöf auk þess sem að grípa á til til skattalækkana til þess að örva hjól efnahagslífsins.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.