Vandi Grikkja enn óleystur. Vonir manna um að takast myndi að fá skjóta lausn í skuldavandamálum Grikkja brugðust í bili að minnsta kosti, en ráðherrar evruríkjanna hafa hafnað tilboði lánardrottna um 4% vexti á lengri skuldabréf í skiptum fyrir núverandi skuldabréf gríska ríkisins. Í frétt Reuters segir að ráðamenn evruríkjanna vilji tryggja að skiptasamningar á nýjum skuldum fyrir gamlar verði með þeim hætti að ekki þurfi að koma til frekari björgunaraðgerða vegna Grikkja og virðast tilbúnir að draga mál á langinn til þess að setja þrýsting á skuldabréfaeigendur.