Íbúðalánasjóður lánaði nærri fjórðungi minna á fyrstu sjö mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra og útlán þessa tímabils eru innan við fjórðungur af því sem þau voru árið 2011. Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka.

Uppgreiðslur aukast talsvert meira en ný lán
Í Morgunkorni Íslandsbanka segir líka að uppgreiðslur lána séu talsvert meiri en ný útlán það sem af er ári. Útlánasafn sjóðsins heldur því áfram að skreppa saman að raungildi. Mánaðarskýrsla Íbúðalánasjóðs er nýkomin út en samkvæmt henni námu útlán sjóðsins í júlí 1,1 milljörðum króna og voru þar af 800 milljónir króna vegna almennra lána. Jafngildir það 20% samdrætti í almennum útlánum milli ára, enda lánaði sjóðurinn um það bil 1 milljarð króna af almennum útlánum í júlí í fyrra.

Það sem af er ári nema heildarútlán Íbúðalánasjóðs  6,6 milljörðum króna en á sama tímabili í fyrra námu útlánin 8,7 milljörðum króna og árið þar á undan var talan 15 milljarðar króna.

Íbúðalánasjóður safnar íbúðum
Vanskil útlána námu samtals 9,1 milljarðar króna í júlílok. Þar af voru vanskil einstaklinga 5 milljarðar króna en vanskil lögaðila 4,1 milljarðar króna. Vanskil eða frystingar náðu samtals til 14,4% af lánasafni sjóðsins í júlílok, sem samsvarar ríflega 116 milljörðum króna. Í upphafi árs var þetta hlutfall 14,7% og hefur það því lækkað lítillega.

Íbúðum í eigu Íbúðalánasjóðs fjölgaði um 350 frá áramótum til júlíloka, eða um tæplega 16%. Ríflega helmingur fasteigna sjóðsins var áður í eigu lögaðila, en tæpur helmingur í eign einstaklinga. Í júlílok átti Íbúðalánasjóður alls 2.578 íbúðir. Það er næstum tvö prósent af öllum íbúðum í landinu.