Hekla hf. hefur tilkynnt Neytendastofu að nauðsynlegt sé að innkalla 19 bifreiðar af tegundinni Mitshubishi L200. Innköllunin nær til bifreiða af árgerð 2016.

Þetta kemur fram í frétt á vef Neytendastofu . Ástæðan fyrir innkölluninni er að möguleiki er á að hnoð í festingum stigbretti geti ryðgað auðveldlega. Gallinn getur haft þær afleiðingar að stigbrettin geti fallið af með tilheyrandi slysahættu.

Viðgerðin er einföld og felur í sér að hnoðinu er skipt út fyrir bolta og rær til að tryggja að brettið haldist á sínum stað. Eigendum bifreiðanna verður tilkynnt um innköllunina bréfleiðis. Séu eigendur í vafa um hvort innköllunin nái til þeirra bifreiða er þeim bent á að hafa samband við umboðið.