Í minnisblaði borgarlögmanns og fjármálastjóra Reykjavíkurborgar til borgarráðs er gerð grein fyrir vanda A-deildar Lífeyrissjóðs sveitarfélaga. Þar kemur fram að lægri ávöxtun og lengri mannsævi hafi skapað vandamál fyrir opinberu lífeyrissjóðanna. Greint var frá þessu í fréttum Ríkisútvarpsins í gær.

Í greinargerðinni kemur fram að miðað við heildarstöðu skuldbindinga sé halli A-deildar miðað við lok síðasta árs 13 milljarðar króna. Miðað við stöðuna núna þurfi framlög frá sveitarfélögunum að hækka um tæp 4 prósent. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá er svipuð staða uppi í A-deild lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna, LSR, þar sem Fjármálaeftirlitið hefur sagt að hækka þurfi iðgjöld í sjóðinn.

Karl Björnsson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga, sagði í viðtali við Rúv að endurskoða þyrfti lífeyrisréttindamál opinberra starfsmanna og það fyrr en síðar.

„Forsendur fyrir þessu kerfi hafa breyst. Það er því sameiginlegt viðfangsefni sveitarfélaga og ríkisins gagnvar LSR og stéttarfélagum opinbera vinnumarkaðarins að vinna að lausn þessa máls. Og það er mjög mikilvægt að um þá lausn ríki sátt," sagði Karl í fréttum Útvarpsins.

Meiri kraft í viðræður

Karl sagði að viðræður stæðu yfir um þetta en setja þyrfti meiri kraft í þær. Ekki þyrfti þó að finna lausn á næstu mánuðum.

„Við þurfum að horfa til langrar framtíðar og finna eitthvað kerfi sem við getum staðið undir og sátt er um," sagði Karl.

Í fréttum Ríkisútvarpsins sagði að ljóst væri að ef auka þyrfti framlag um 4% í sjóðinn yrði það gríðarlega kostnaðarsamt fyrir sveitarfélögin. Hinn möguleikinn myndi hins vegar alltaf fela í sér einhverja skerðingu á lífeyrisréttindum, hvort sem það yrði lægri lífeyrisgreiðslur, hærri lífeyrisaldur eða annars konar breyting á lífeyriskerfinu.