*

mánudagur, 1. mars 2021
Innlent 21. febrúar 2021 16:02

Vandi sjóðanna meiri en búist var við

Sjóðir sem dótturfélag Kviku í Bretlandi tók við stýringu á í fyrra verður slitið eftir tugmilljarða niðurfærslu á skömmum tíma.

Ingvar Haraldsson
Sjóðirnir tveir, sem dótturfélag Kviku stýrir, eru skráðir í Kauphöllina í London.
epa

Síðan dótturfélag Kviku banka í Bretlandi tók við stýringu á rekstri tveggja veðlánasjóða þar hefur 37% af virði stærri sjóðsins verið afskrifað. Þá hafa hluthafar beggja sjóða samþykkt tillögu stjórnenda þeirra um að slíta sjóðunum í kjölfar fjölda vandræðalána í lánasafninu. Búist er við að nokkur ár taki að slíta sjóðunum.

Í lok apríl í fyrra var tilkynnt að KKV Investment Management, sem er nýtt sjóðastýringafélag í meirihlutaeigu Kviku, myndi taka við stýringu tveggja breskra veðskuldasjóða sem þegar áttu í erfiðleikum. Þá lá fyrir að afskrifa þyrfti hluta eigna stærri sjóðsins, Secured Loan Fund, vegna rekstrarerfiðleika lánþega sjóðsins. Þau vandræði hafa hins vegar reynst töluvert meiri en búist var við.

Þegar KKV tók við rekstrinum í byrjun júní var lánasafnið metið á 357 milljónir punda, eða um 64 milljarða króna, en síðan þá hefur virði lánasafnsins verið fært niður um 37%, niður í 223,5 milljónir punda, sem samsvarar um 40 milljörðum króna.

Vinna að stofnun nýrra sjóða

Kvika á ekki sjóðina heldur eru sjóðirnir og lánasafnið í eigu hluthafa þeirra. Dótturfélag Kviku fær hins vegar þóknanir fyrir umsjón með rekstri sjóðanna í hlutfalli við virði eigna þeirra. Afskriftir á lánasafninu hafa því í för með sér að tekjur dótturfélags Kviku lækka.

„Við bjuggumst við að það gætu komið upp ný mál til að takast á við. En það er enginn vafi á því að þetta var heldur meira en við áttum von á. Við munum vinna við stýringu þessara sjóða þar til þeim verður að fullu slitið eftir nokkur ár,“ segir Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kviku í Bretlandi.

 Hins vegar hafi slit sjóðanna ekki veruleg áhrif á áform Kviku um uppbyggingu sjóðastýringafélags í Bretlandi. „Eftir sem áður sjáum við KKV sem góða leið til að komast inn á þennan markað. Við tókum yfir teymi sem við getum byggt fyrirtækið í kringum. Við sáum fyrir okkur að stýring þessara sjóða yrði tekjulind fyrir okkur í einhvern tíma á meðan við byggðum upp aðra starfsemi. Þó svo að þetta hafi komið upp setur það verkefnið ekki út af sporinu,“ segir hann.

Einnig bendir Gunnar á að KKV vinni að því að koma upp nýjum sjóði. „Við vonumst til að það muni gerast síðar á þessu ári eða í byrjun þess næsta,“ segir hann.

Kvika hafi frá upphafi séð tækifæri í að hagræða í rekstri sjóðsins en fyrirtækinu var lagalega skylt að bjóða starfsmönnum eldra sjóðastýringafélagsins starf. Síðan þá hafi hins vegar verið fækkað í starfsmannateymi sjóðastýringafélagsins úr 19 í 13 og félagið endurskipulagt sig sem auki hagræði af rekstrinum.

Gjaldþrota spítali, gröfur í Afríku, sólarsellur og gámahótel

Upphaflegu vandræðalánin tengdust endurvinnslustöðvum sem breyta úrgangi í gas sem nýtt er til að framleiða rafmagn. Í ljós kom í janúar 2020 að afskrifa þyrfti lán til nokkurra slíkra verksmiðja. Í kjölfarið var farið í vinnu með að endurskoða stjórnun sjóðsins sem lauk með því að KKV, dótturfélag Kviku, tók við stýringu sjóðanna í byrjun júní. Eftir að KKV tók við rekstrinum var nýjum útlánum hætt og megnið af kröftum starfsmanna farið í að átta sig á hvert raunverulegt virði lánasafnsins væri.

Í lánasafni stærri sjóðsins eru alls 61 lán, sem eru að meðaltali 5,7 milljónir punda að stærð, um einn milljarður króna og bera þau að meðaltali 9,1% vexti. Meðal annarra vandræðalána en endurvinnslustöðva sem afskrifuð hafa verið að stórum hluta er gjaldþrota spítali í Arisóna, sólarselluframleiðandi, endurtryggingarfélag, félög um þyrlu- og skipakaup, mexíkóskt fjármögnunarleigufélag, franskur varahlutaframleiðandi, skoskur pappísframleiðandi, gröfur sem nýttar hafa verið til námugraftar en eru fastar í Vestur-Afríkuríkinu Síerra Leóne, fjarskiptainnviðafélag í Brasilíu, félag sem þjónustar olíu- og gasiðnaðinn með drónum, færanleg gámahótel og félag sem sér um húshitun á Bretlandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Kvika