*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 10. maí 2020 10:08

Vandi stjórnenda en ekki starfsfólks

Formaður VR segir komið hafi til umræðu innan lífeyrissjóða að gera kröfu um að stjórn og stjórnendum Icelandair verði skipt út.

Ritstjórn
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Haraldur Guðjónsson

Gæti verið að stjórnendur félagsins séu helsta fyrirstaðan að Icelandair verði bjargað?,“ spyr Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR í færslu á Facebook. Vart gangi að stjórn og stjórnendur velti eigin fortíðarvanda yfir á starfsmenn félagsins.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í bréfi til starfsmanna í gær að helsta fyrirstaða þess að félagið gæti bjargað sér væru „við sjálf, starfsfólkið sem starfar hjá fyrirtækinu“. Nauðsynlegt fyrir framtíðarfjármögnun félagsins að það tækist að lækka launakostnað svo það væri samkeppnishæft við alþjóðleg flugfélög. Endursemja þyrfti við starfsfólk fyrir hluthafafund 22. maí.

Meirihluta starfsmanna Icelandair hefur verið sagt upp og þeir sem eftir standa eru flestir á hlutabótum. 41 flugfreyja var áfram með vinnu hjá félaginu eftir að 897 var sagt upp um mánaðamótin. Þá fékk 421 flugmaður uppsagnarbréf og eftir voru 26 flugmenn hjá félaginu líkt og Viðskiptablaðið greindi frá.

Sjá einnig: Verkfallsrétturinn undir í viðræðum Icelandair

„Ég get þó nánast fullyrt að lífeyrissjóðirnir opna ekki buddur sínar fyrir félag sem ætlar starfsfólki að afsala sér grundvallar réttindum,“ segir Ragnar. Þór.

Taprekstur hafi verið á Icelandair undanfarin ár sem skrifa verði á stjórnendur félagsins. Stjórn og stjórnendur hafi meðal annars gert mistök við innleiðingu á leiðakerfi og innri breytingar, og ákveðið að standa með samningum um 737 MAX flugvélunum sem fáir þori að fljúga með. 

Velta fortíðarvanda á lífeyrissjóði og skattgreiðendur

„Sama stjórn og stjórnendur og vilja nú með öllum ráðum velta fortíðarvanda félagsins yfir á lífeyrissjóði og skattgreiðendur í nafni þess að vandamálið sé starfsfólkið þegar málið snýst um það sem fáir virðast þora að segja. Að halda núverandi stjórnendaklíku við völd í einu af stærstu og mikilvægustu fyrirtækjum landsins. Sama stjórn og stjórnendur og telja sig geta sannfært fjárfesta með trúverðugum áætlunum, en munu svo vafalaust kenna starfsfólkinu um ef illa fer og ekki tekst að fjármagna félagið.“ segir Ragnar Þór.

„En mikið er ég orðin þreyttur á því að alltaf skuli starfsfólkið vera aðal vandamálið þegar illa gengur þegar annað er augljóst.“ Hann segir að starfsfólkið sé hluti af lausninni, ekki vandanum. Hvernig sem fari þurfi að tryggja að réttindi starfsmanna verði virt.

Rætt um að skipta út stjórn og stjórnendum

Ragnar Þór fullyrðir að innan stjórna lífeyrissjóðanna hafi komið til umræðu að setja ætti skilyrði um að stjórn og stjórnendum yrði skipt út ef skoða eigi þátttöku í hlutafjárútboðinu. „Ég tel að flestum sé það ljóst að Icelandair verði bjargað með einhverjum hætti og mögulega sé það ekki versti kosturinn verði það gert með sama hætti og með bankana eftir hrun. Það mætti jafnvel skoða að starfsfólkið taki félagið yfir með stuðningi ríkisins og lífeyrissjóða,“ segir hann.