Það hriktir í ýmsum stoðum efnahagslífs Íslendinga um þessar mundir vegna lausafjárvanda bankanna. Þegar er farið að bera á rekstrarfjárskorti hjá ýmsum byggingaverktökum og einstaklingum, sem getur síðan haft keðjuverkandi áhrif á rekstur stórra þjónustufyrirtækja á borð við Húsasmiðjuna.

Steinn Logi Björnsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, segir þó að enn sem komið er séu veltutölur samkvæmt áætlun fyrsta ársfjórðungs, en ljóst sé að minna vörumagn sé á bak við þá sölu, m.a. vegna erlendra hækkana.

„Það er enginn skortur á framkvæmdavilja og ég tel að það sé kraftur í þjóðfélaginu. Við megum heldur aldrei gleyma því að við erum ung þjóð og tiltölulega nýþróuð. Það þýðir að við höfum nær endalausa lyst eða þörf fyrir mannvirkjagerð við uppbyggingu á innviðum þjóðfélagsins á borð við hafnir, flugvelli og vegi. Því er undirliggjandi mikil þörf og löngun. Vandamálið núna er bara skortur á peningum. Peningar er afl þeirra hluta sem gera skal og það sannast nú þegar verktakar og aðrir fá ekki þá peninga sem þeir þurfa,“ segir Steinn Logi.

Steinn Logi tekur undir það að byggingaverktakar og tengdar greinar séu farnar að finna verulega fyrir lokun bankanna á lánsfjármagn.

_____________________________________

Í helgarblaði Viðskiptablaðsins er viðtal við Stein Loga Björnsson, forstjóra Húsasmiðjunar. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .