Portúgalska hagkerfið hefur tekið við sér á ný, a.m.k. til skemmri tíma litið, en enn á eftir að takast á við alvarleg vandamál sem hafa verið óleyst frá því fyrir björgunaraðgerðirnar 2011, að því er segir í nýrri skýrslu lþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var í dag. AP greinir frá.

Portúgal hefur notið nokkurra jákvæðra ytri þátta, svo sem lágra vaxta, olíuverðslækkana og gengisveikingar evrunnar, sem hefur stutt við útflutningsgeira þar í landi.

Í skýrslunni segir hins vegar að enn eigi eftir að takast á við vandamál eins og mjög hátt skuldahlutfall einkaaðila, fyrirtækja og hins opinbera. Þessar háu skuldir leiddu til þess að árið 2011 neyddist Portúgal til að leyta eftir alþjóðlegri fjárhagsaðstoð eftir að peningamarkaðir lokuðust fyrir landinu.

Þá er atvinnuleysi enn um 14% og fjárfesting er lítil í landinu. Öll stóru matsfyrirtækin telja skuldabréf portúgalska ríkisins vera í ruslflokki, sem ekki hefur bætt úr skák. AGS segir að enn þurfi að hagræða í opinberum fjármálum, en í ljósi þess að þingkosningar verða í haust er ekki talið að stjórnarflokkarnir muni leggja til frekari aðhaldsaðgerðir í aðdraganda þeirra.