Reykjavíkurborg ætlar að endurnýja malbik á 16,8 kílómetrum af götum borgarinnar í sumar. Um er að ræða 125 þúsund fermetra af malbiki, eða sem jafngildir tvöföldu gólfplássi Smáralindar. Framkvæmdirnar kosta borgina 560 milljónir.

Götur á forræði Reykjavíkurborgar eru samtals 420 kílómetrar. Það þýðir að um 4 prósent af götum borgarinnar verða endurnýjuð í sumar. Ef yfirborðslag gatna verður endurnýjað á sama hraða mun taka 25 ár að endurnýja allar götur borgarinnar.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Ámundi V. Brynjólfsson, skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg, að æskilegt væri að malbika meira en gert er ráð fyrir að verði á þessu ári. „Við höfum ekkert dregið neitt dul yfir það, að við vildum gjarna hafa meira fé til að malbika fyrir,“ segir hann.

„Ég myndi segja að eitthvað sem er eðlilegt væri 5-­6%,“ segir Ámundi spurður um hversu stórt hlutfall af gatnakerfi borgarinnar æskilegt væri að malbika á hverju sumri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .