Vandi Íbúðalánasjóðs heldur áfram að versna. Ekkert lát er á snemmbúnum uppgreiðslum til Íbúðalánasjóðs, en frá áramótum þar til júlí nema þær 10 milljörðum króna sem er álíka mikið og á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í hálfsársuppgjöri Arion banka sem greiningadeild Arion banka gerir að umtalsefni.

Greiningadeild Arion banka áætlar að sjóðurinn verði af um 300 milljón króna vaxtatekjum á ári vegna þessa. Íbúðalánasjóður telur að helsta ástæðan fyrir uppgreiðslunum sé að viðskiptavinir sjóðsins kjósi frekar óverðtryggð lán hjá einkareknu bönkunum og að þeir séu að endurfjármagna lánin sín án þess að fasteignaviðskipti búi þar að baki. Það verður ekki annað séð en að lántakendur haldi áfram að færa sig frá sjóðnum yfir til bankanna enda hafa kjör sjóðsins verið 4,2% með uppgreiðslugjaldi frá því janúar í fyrra en almennt bjóða bankarnir 3,5 til 3,75% vexti á húsnæðislánum.

Frá áramótum til júlí hafa uppgreiðslur verið um 3,5 milljörðum króna hærri en ný útlán hjá sjóðnum. Þá upphæð ásamt rúmlega 40 milljarða króna vaxtatekjum af útlánum og ríkisbréfum hefur sjóðurinn getað nýtt til að greiða um 42,5 milljarða króna greiðslur af íbúðabréfum og húsnæðisbréfum. Afganginn hefur hann þurft að nota til að mæta virðisrýrnun útlána eða í endurfjárfestingar á millibankamarkaði sem bera lægri ávöxtun en af fasteignaútlánum.

Virðisrýrnunin hefur verið það há undanfarið að hún hefur þurrkað út afganginn og meira til þannig að sjóðurinn mun neyðast til að ganga á eigið fé í framtíðinni til að greiða af skuldum sínum. Eigið fé sjóðsins hefur lækkað úr 14,7 milljörðum króna frá því um síðustu áramót í 11,7 milljarða króna eða um 20%. Eiginfjárhlutfall sjóðsins heldur því áfram að lækka og er 2,5% sem umtalsvert undir því 4% lágmarki sem tilgreint er í reglugerð.