*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Innlent 19. september 2016 18:01

„Vandlifað í veröldinni“

Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar - Höldur, segir ferðamannatímabilið lengjast og hápunktinn vera að færast.

Höskuldur Marselíusarson
Haraldur Guðjónsson

Höldur, bílaleiga Akureyrar er með yfir 20 afgreiðslur víðast hvar um landið, forstjórinn Steingrímur Birgisson segir stærstu afgreiðslurnar vera í Keflavík og Reykjavík, þó höfuðstöðvarnar séu fyrir norðan.

Metsumar, en hápunkturinn færist

„Við vorum með í sumar yfir fjögur þúsund og tvö hundruð bíla. Sumarið gekk mjög vel, var í raun metsumar í fjölda útleiga hjá okkur. Ég hefði þó viljað hafa betri nýtingu í júní og júlí, en nú er ágúst orðinn stærsti sumarmánuðurinn,“ segir Steingrímur.

„Ágúst hefur verið að stækka, í rauninni hafa axlirnar verið að stækka almennt, verið meira að gera um vetur og vor og haust, en yfir sumarmánuðina þá hefur í rauninni ágúst tekið við sem stærsti mánuðurinn af júlí, sem var í gamla daga alltaf stærsti mánuðurinn.“

Mannekla í ágúst og september

Steingrímur segir þetta valda ferðaþjónustunni vanda vegna mönnunar, enda fara margir nemar aftur í skóla upp úr miðjum ágústmánuði.

„Ef ég væri menntamálaráðherra myndi ég vilja breyta skólaárinu í frá 15. September til 30. Maí eða eitthvað, eins og það var í gamla daga,“ segir Steingrímur.

„Það er algengara víða í Evrópu að menn séu að taka sumarfrí í ágúst heldur en í júní og júlí. Skólar erlendis eru margir hverjir í gangi út júní jafnvel inn í júlí, og eru svo að byrja aftur í september.“

Góður tími út september

Steingrímur segir eftirspurnina yfir vetrarmánuðina vera að aukast almennt.

„Í gamla daga, eða í raun bara fyrir nokkrum árum, þá var sumarið aðaltíminn, þá frá 20. Júní til 20. ágúst, en nú eru í rauninni allir sumarmánuðirnir orðnir mjög góðir og alveg út í september,“ segir Steingrímur.

„Við getum sagt að mánuðir eins og maí og september, sem voru í raun mjög rólegir fyrir kannski fimm til tíu árum síðan, eru orðnir alveg ágætir núna.“

Gengisþróun veldur áhyggjum

Steingrímur segist helst hafa áhyggjur af þróun gengismála fyrir ferðaþjónustuna í heild, þó hann hafi ekki tekið eftir því að dregið hafi úr eftirspurn.

„Nei, ég skynja hins vegar áhyggjur erlendra ferðaheildsala fyrir næsta ár, einn sem ræddi bara við mig fyrir helgi sagði einmitt að það væru töluverð hækkun hjá hótelum, vegna gengismála einmitt. Það er almenn hækkunarþörf til staðar í greininni vegna kostnaðarauka, laun hafa hækkað gríðarlega milli ára, eins og tryggingar í okkar geira, og þegar til viðbótar kemur styrking krónunnar, þá er vandlifað í veröldinni.“