Suðurkóreski raftækjarisinn Samsung hefur verið talsvert í fréttum upp á síðkastið vegna síma fyrirtækisins Samsung Galaxy Note 7, sem hafa sprungið í höndum eigenda þeirra.

Í kjölfar þess að Samsung hætti sölu á símanum, hefur það nú lækkað spá sína um hagnað fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi. Samsung reiknaði með að hagnaður fyrirtækisins næmi 7,8 trilljónir wona, en lækkar spána niður í 5,2 trilljónir wona, eða því sem jafngildir 4,7 milljörðum dollara.

Gengi hlutabréfa í Samsung lækkaði um 0,8% í kjölfar yfirlýsingar fyrirtækisins á mánudaginn. Gengi hlutabréfa í Samsung lækkaði einnig um 8% daginn áður. Greiningaraðilar telja líklegt að vandræði Samsung gætu haft mikil áhrif til lengri tíma, sérstaklega þar sem að Google og Apple hafi nýlega tilkynnt um útgáfu nýrra síma.

í frétt Reuters kemur fram að skaði fyrirtækisins vegna málsins gæti numið um 17 milljörðum dala.

Eldvarinn kassi

Samsung hefur sent eigendum símanna umbúðir til þess að skila símunum í, en þeir innihalda meðal annars eldvarinn kassa og hanska. Eigendur Samsung Galaxy Note 7, geta fengið símana endurgreidda eða skipt út fyrir aðrar vörur fyrirtækisins.