Lindey Page, forstjóri breska tískuvöruframleiðandans Ted Baker hefur sagt starfi sínu lausu einungis átta mánuðum eftir að hún hóf störf. Þá hefur David Bernstein, stjórnarformaður fyrirtækisins einnig látið af störfum. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Afsagnirnar koma í kjölfarið á neikvæðri afkomu viðvörun sem félagið sendi frá sér í dag. Gerir fyrirtækið nú ráð fyrir að hagnaður reikningsársins fyrir skatt verði á bilinu 5-10 milljónir punda en greiningaraðilar höfðu áður gert ráð fyrir um 28 milljóna hagnaði. Þá nam hagnaður fyrirtækisins á síðasta ári tæplega 51 milljón punda fyrir skatt.

Ted Baker hefur átt í miklum rekstarerfiðleikum það sem af er ári en eins og afkomuviðvörunin gefur til kynna mun hagnaður fyrirtækisins hríðfall á árinu. Fyrirtækið tapaði 23 milljónum punda á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 24,5 milljón punda hagnað eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í október.

Hlutabréfaverð Ted Baker lækkaði um 25% í fyrstu viðskiptum í morgun en þegar þetta er skrifað nemur lækkunin um 12%. Hlutabréfaverð félagsins hefur lækkað um 77% það sem af er ári og hefur ekki verið lægra frá árinu 2003.