Japanska stórfyrirtækið Toshiba gerir ráð fyrir að tap rekstrarársins 2016 muni nema 995 milljörðum jena. Þetta kemur fram í afkomuviðvörun sem fyrirtækið sendi frá sér í dag. Er þetta aukning upp á 45 milljarða jena frá síðustu afkomuviðvörun sem gerði ráð fyrir 950 milljarða tapi.

Toshiba var í dag fært niður í neðri flokk kauphallarinnar í Tokyo eftir að fyrirtækið staðfesti að skuldir félagsins væru hærri en eignir. Þá fékk fyrirtækið frest til þess að skila ársreikningi. Gildir fresturinn til 10 ágúst.

Vandræði hafa valdið stjórnvöldum í Japan miklum áhyggjum. Fyrirtækið er eitt það stærsta í landinu þar sem það er með um 100 þúsund starfsmenn. Síðastliðinn miðvikudag samþykkti fyrirtækið tilboð fjárfestahóps sem leiddur var af japanska ríkinu upp á 2.000 milljarða jena í framleiðslu þess á minniskortum.