Þegar vextir á langtíma ríkisskuldabréfum fara hækkandi er það yfirleitt til marks um að fjárfestar óttist verðbólgu og að fjármögnunarkjör viðkomandi stjórnvalda muni fara versnandi.

Í síðustu viku fóru vextir á bandarískum ríkisskuldabréfum til tíu ára – þau bréf eru oftar en ekki notuð sem viðmið fyrir ákvörðun annarra vaxta – yfir 3,73%.

Í sögulegu samhengi skjóta slík kjör ekki mönnum skelk í bringu. En þar sem um er að ræða mikla hækkun frá því í ársbyrjun (vextir á slíkum bréfum voru rétt ríflega 2% við lok síðasta árs) er ekki furða að margir séu óttaslegnir. Ekki síst þegar litið er til gríðarlegrar útgjaldaaukningar bandarískra stjórnvalda vegna fjármálakreppunnar.

Þekktum sleggjum í heimi hagfræðinnar líst ekki á blikuna. Í síðustu viku varaði John Taylor, höfundur hinna þekktu reglu í stjórn peningamála sem við hann er kennd, við því að skuldir bandaríska ríkisins gætu orðið að öllu óbreyttu um 100% af landsframleiðslu innan fárra ára.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í ítarlegri erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .