Sparifjáreigendur skiluðu sér aftur til Northern Rock í gær þegar ríkisstjórnin lofaði að ábyrgjast innistæður viðskiptavina bankans. Gengi bréfa í breskum fasteignalánafyrirtækjum hækkaði í kjölfarið. Óvissa á breskum fasteignamarkaði smitaði út frá sér til Spánar, en fjármálaráðherrann þar í landi segir hins vegar aðstæður þar vera gjörólíkar þeim sem eru uppi á Bretlandi.

Lækkanir á gengi hlutabréfa í Northern Rock og Alliance & Leicester (A&L) gengu að hluta til baka í gær eftir yfirlýsingu breskra stjórnvalda um að þau myndu tryggja innistæður sparifjáreigenda í bankanum Northern Rock, sem hefur einkum hefur sérhæft sig í húsnæðislánum, enda þótt fyrirtækið myndi lenda í greiðsluerfiðleikum. Sú trygging, sem á sér ekkert fordæmi á þar í landi, bar tilætlaðan árangur: Eftir að bankarnir höfðu lækkað um meira en 30% á mánudaginn hækkaði gengi bréfa í Northern Rock um 8% og A&L um 33%. Þrátt fyrir hækkanir á gengi bréfa í Northern Rock hefur markaðsvirði bankans engu að síður minnkað um meira en helming frá því á föstudagsmorgun þegar Englandsbanki veitti bankanum neyðaraðstoð til að bjarga honum frá gjaldþroti.

Hækkanir á gengi bréfa í A&L voru að hluta til raktar til þess að greiningardeildir JPMorgan Cazenove og Dresdner Kleinwort sögðu að góð kauptækifæri hefðu myndast í bankanum eftir 31% lækkun á mánudaginn. Bankarnir uppfærðu því verðmat sitt á A&L úr "halda" í "kaupa" og vísuðu til þess að enginn rökrétt ástæða hefði verið fyrir hinu mikla verðfalli á mánudaginn í ljósi þess að tekjuhorfur fyrirtækisins væru enn góðar.

Fyrsta stóra bankaáhlaupið á Bretlandi í 150 ár
Ákvörðun Alistair Darlings, fjármálaráðherra Bretlands, að hlaupa undir bagga með Northern Rock ef til þess kæmi að bankinn gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar, kom í kjölfar þess að þúsundir manns þyrptust við útibú bankans - þriðja daginn í röð - til að endurheimta innlán sín. Atburðarásin undanfarna daga, sem markar fyrsta stóra bankaáhlaupið á Bretlandi frá því á miðri nítjándu öld, hefur öll þau einkenni þegar einstaklingar missa trú á getu einstakra banka - í þessu tilfelli Northern Rock - til þess geta staðið við skuldbindingar sínar og draga fé sitt úr þeim. Slíkt getur haft víðtæk áhrif fyrir önnur fjármálafyrirtæki og smitað út frá sér þegar hluti innlána er bundinn í öðrum fjárfestingum. Skiptar skoðanir eru hins vegar um réttmæti þess að bresk stjórnvöld gripu inn í með jafn afgerandi hætti og raun bar vitni. Sumir sérfræðingar hafa fært rök fyrir því að afleiðingarnar af slíku inngripi - að tryggja innistæður Northern Rock og allra annarra banka í sambærilegum vandræðum - gætu orðið þær að skapa umhverfi á fjármálamarkaði þar sem markaðsaðilar vanmeti áhættu og kasti af sér siðlægri gætni (e. moral hazard) í starfsemi sinni.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.