Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG og nefndarmaður í fjárlaganefnd, telur talsverðan vafa leika á því hvort loforð ríkisstjórnarinnar um hallalausan ríkisrekstur muni takast í ár, þrátt fyrir talsvert hærri tekjur en reiknað var með í fjárlögum ársins. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Ríkisstjórnin þurfi að fara að huga að aukinni tekjuöflun fyrir ríkissjóð ef fram fer sem horfir samkvæmt Bjarkey.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, segir þó að enn sé stefnt að hallalausum ríkisrekstri þetta árið og að allt kapp verði lagt á að svo megi verða. Stefnt sé að meiri afgangi á næsta ári svo hægt sé að borga niður sligandi skuldir ríkissjóðs.

Umframeyðsla gæti gert út af við fjárlög

Fjöldi ríkisstofnana hafa farið fram úr heimildum sínum samkvæmt fjárlögum. Þannig hafa Sjúkratryggingar Íslands til að mynda farið 530 milljónir fram úr áætlun og viðbúið er að umframeyðslan geti orðið allt að 2,7 milljarðar ef fram fer sem horfir.

Þá hefur framhaldsskólakerfið farið talsvert fram úr fjárheimildum sínum samkvæmt Vigdísi Hauksdóttur. Fyrir vikið sé ekki útséð að áætlanir munu standast, þrátt fyrir að tekjur ríkissjóðs séu meiri en ráðgert var vegna bata í efnahagslífinu.

Fjárlög sjaldan staðist

Ljóst er að mjög illa hefur gengið að halda eyðslu opinberra stofnana innan fjárlaga seinustu ára. Þannig var halli á rekstri ríkissjóðs tíu milljörðum meiri en ráðgert var í fjárlögum fyrir árið 2012, þar sem tekjur umfram gjöld voru 35,8 milljarðar en höfðu verið áætlaðar 25,8 milljarðar. Svipaða eða verri sögu er að segja af fjárlögum áranna á undan.

Af þessu tilefni hefur Ríkisendurskoðun gefið út skýrslu um ársáætlanir ríkisstofnana og stöðu fjárlagaliða, þar sem eftirfarandi tilmælum er beint til æðstu stjórnar ríkisins:

1. Leggja þarf áherslu á að ráðuneyti ljúki afgreiðslu áætlana strax eftir áramót eins og gert er ráð fyrir í reglugerð um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta.

2. Ráðuneyti þurfa að ganga ríkt eftir því að stofnanir jafni halla frá fyrra ári og samþykkja ekki áætlanir nema tekið sé tillit til þess í rekstrinum. Sé hins vegar ekki talið unnt að draga úr rekstri vegna umframgjalda fyrri ára ætti að leggja til að skuldin verði felld niður.

3. Gæta þarf þess við fjárlagagerðina að taka tilliti til atriða sem eru fyrirsjáanleg á árinu og að fjárveitingar taki mið að reynsutölum fyrri ára sé ekki beinlínis ætlunin að breyta fjárhæð útgjaldaheimilda frá því sem verið hefur.