Innlán viðskiptavina Landsbanka Íslands jukust um 104% á síðasta ár og námu 683 milljörðum króna í árslok 2006. Nema innlánin tæplega 50% af heildarútlánum til viðskiptavina. Svo virðist sem tilkoma Icesave hafi tekist mjög vel og veltir greiningardeild Glitnis því fyrir sér hvort vörumerkið verði kynnt í öðrum löndum á næstunni.

Í tilkynningu bankans vegna uppkjörsins segir Sigurjón Árnason bankastjóri félagsins að vel hafi tekist til með fjármögnun bankans bæði með skuldabréfaútgáfum og ekki síður með nýjum innlánaafurðum. "Innlán sem hlutfall af útlánum til viðskiptavina eru nú tæplega 50% samanborið við 34% í byrjun ársins. Stór þáttur þessar velgengni má þakka sérstaklega vel heppnaðri innkomu Icesave á Bretlandsmarkað á 4. ársfjórðungi, en innlán Icesave námu tæpum 110 milljörðum króna í lok ársins," segir Sigurjón.

Í kynningu bankans kemur fram að innlán frá viðskiptavinum jukust um 170 milljarða króna á tímabilinu. Icesave virðist því gríðarlega vel heppnað innlánaform og fróðlegt verður að sjá hvort vörumerkið verði kynnt í öðrum löndum á næstunni segir greiningardeild Glitnis í Morgunkorni sínu.