Bréf sænska fjármálafyrirtækisins Carnegie hækkuðu um 7% í sænsku kauphöllinni í dag en þrálátur yfirtökuorðrómur hefur verið í gangi í kringum félagið og íslensk félög verið nefnd í því sambandi. Í dag greindu sænskir fjölmiðlar frá því að starfsmönnum Kaupþings hefði verið bannað að kaupa bréf í Carnegie og skipti þá engu þó það væri fyrir viðskiptavini. Sænskir miðlar henda þeirri hugmynd á loft að Kaupþing hyggist taka yfir Carnegie.

Að sögn Jónasar Sigurgeirssonar, talsmanns Kaupþings, þá er það stefna félagsins að tjá sig ekki um orðróm á markaði. Því geti hann ekki tjáð sig um þetta tilvik fremur en önnur slík tilvik.

Carnegie hefur átt í miklum erfiðleikum undanfarið í kjölfar hneykslismála sem komu upp og því þykir mörgum sem félagið sé ákjósanlegt yfirtökuskotmark. Félagið er um það bil 10 sinnum minna en Kaupþing banki.