Formaður stjórnar Seðlabanka Bandaríkjanna, Janet Yellen, gæti verið á leið úr starfi, en skipunartími hennar rennur út í febrúar.Í vitnisburði hennar fyrir neðri deild bandaríska þingsins í dag var hún spurð hvort hún búist við því að Donald Trump forseti Bandaríkjanna muni skipa hana áfram.

Mætir hún tvisvar á ári fyrir þingnefndina, og var hún spurð af þingmanni Repúblikana, Sean Duffy, hvort hún byggist við því að þetta yrði seinasti vitnisburður hennar fyrir þinginu, að því er segir í frétt CNBC .

„Skipunartími minn rennur út í febrúar, svo það gæti vel verið,“ svaraði hún, en hefðin býður að seðlabankastjórar fái að vita það í kringum ágúst hvort þeir verði beðnir um að sitja áfram.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ekki gefið neitt út um málið, en hann var gagnrýninn á hana á meðan kosningabaráttunni stóð. Sakaði hann hana um að ýta undir hagkerfið með peningastefnu sinni til að hjálpa stjórn Obama.

En síðan þá hefur hann verið frekar þögull um starfsemi bankans. Yellen svaraði fyrri spurningu sams konar efnis þannig að hún hafi ekki hugsað út í framtíðina, heldur sé hún að einbeita sér að ná þeim markmiðum sem stjórninni hafi verið sett.