Töluverð umræða hefur verið um áformaða hlutafjáraukningu Kaupþings Banka í skandínavískum fjölmiðlum í dag. Flestir virðast þeir telja að aukningin verði til að renna frekari stoðum undir áform bankans um kaup á skandinavískum banka. Þar er helst rætt um Storebrand, Sampo, SBAB eða einhvern danskan banka.

Á netsíðu Dagens Industri í Svíþjóð eru framangreindir bankar taldir upp og vitnað í heimildarmenn blaðsins. Þar er vitnað til ágengrar útþennslustefnu Kaupþings og rifjað upp að bankinn hafi dregið til sín starfsmenn Carnegie til að byggja upp fyrirtækjasvið sitt. Danska viðskiptaritið Börsen sagði í fyrirsögn að Kaupþing hefði áhuga á dönskum banka.

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings banka, vildi ekki tjá sig um það hvort bankinn hefði áhuga á að kaupa SBAB en sagði í samtali við blaðamenn Dagens Industri að bankinn hafði áhuga á að vaxa í Svíþjóð.

Bréf Sampo hækkuðu um 1,3 prósent í 17,20 evrur og bréf Storebrand hækkuðu um 3,5 prósent í 81,80 norskar krónur.