Tillögur þær sem lagðar hafa verið fyrir aðalfund Bakkavarar gefa að mati Greiningar Glitnis vísbendingar um að félagið vilji hafa rúmar heimildir til frekari ytri vaxtar í ár. Þannig hefur stjórn félagsins lagt fyrir aðalfundinn 23. mars að fá heimild til að gefa út hluti að nafnverði um allt að 2 milljörðum króna.

Það nálægt tvöföldun miðað við núverandi nafnverð hlutafjár í félaginu (2.157 m.kr.).

Til viðbótar er lagt fyrir aðalfund að fá heimild til að breyta hlutafé í sterlingspund. Ef túlka á tillögur þessar (að því gefnu að þær verði samþykktar) vilja stjórnendur hafa svigrúm til að kaupa félag sem er allt að því jafnstórt án frekari skuldsetningar segir Greining Glitnis í Morgunpunktum sínum. Hins vegar ef ráðist verður í yfirtöku sem fjármögnuð er með útgáfu nýrra hluta ásamt skuldsetningu hefur félagið möguleika á að kaupa félag sem er stærra en Bakkavör. Í tilkynningu sem send var út samhliða ársuppgjöri fyrir árið 2006 kom fram að stjórnendur hafi hug á að vera áfram leiðandi í yfirtökum í Bretlandi og á meginlandi Evrópu. Verði tillögurnar samþykktar hefur félagið skapað sér svigrúm til að standa við útgefin orð sín um frekari ytri vöxt.