Miklar vangaveltur hafa verið í íslenskum fjölmiðlum um hugsanlega uppstokkun í hluthafahópi Glitnis og í hádegisfréttum RÚV var fullyrt að tilkynnt yrði um breytingarnar í dag og bar fréttastofan fyrir sig heimildir sínar. Áður hafði Morgunblaðið og Fréttablaðið greint frá svipuðum vangaveltum. Engar fréttir hafa borist frá félaginu og opið er fyrir viðskipti með bréf þess í Kauphöllinni.

Viðskiptablaðið hefur fengið staðfest að unnið er að lausn á þeim ágreiningi sem er í hluthafahópi félagsins. Svo virðist sem annars vegar sé þar um að ræða stjórnendur FL Group, sem er stærsti hluthafi félagsins, og hins vegar núverandi stjórnarformann, Einar Sveinsson, en næst stærsti hluthafi bankans, Karl Wernersson, hefur fylkt sér með honum.

10 stærstu hluthafar í Glitni 2. apríl 2007:

1. FL GLB Holding B.V. 13,11%
2. FL Group Holding Netherlands B. 10,36%
3. Þáttur International ehf 8,94%
4. Þáttur eignarhaldsfélag ehf 5,40%
5. Arion safnreikningur 4,12%
6. FL GROUP hf 2,91%
7. Jötunn Holding ehf 2,35%
8. GLB Hedge 2,11%
9. Hrómundur ehf 1,84%
10. Barclays Bank Plc (Dorset) 1,74%

Skráðir hlutir í Glitni banka hf. eru 14,9 milljarðar og er nafnverð hvers hlutar ein króna.

Hluthafar eru tæplega 12 þúsund; fagfjárfestar, fyrirtæki og félög. Nær öll hlutabréf í bankanum eru í eigu innlendra aðila og er hlutdeild einstaklinga um fjórðungur samkvæmt upplýsingum sem fengust á heimasíðu bankans.


Hlutur tíu stærstu hluthafa 52,87%