Tryggingastofnun
Tryggingastofnun
Um 9.500 manns fengu bætur umfram rétt á árinu 2010 frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar af voru um 3.000 manns með 100 þúsund krónur eða meira í ofgreiddar bætur. Heildarupphæð sem bótþegar þurfa að greiða til baka er um 1,2 milljarður króna.

Þá eru 31 þúsund manns með inneignir vegna vangreiddra bóta, þar af eru 20 þúsund manns með 100 þúsund krónur eða minna. Heildarupphæð inneigna nemur 3,6 milljörðum króna.

Árlega fer fram endurreikningur og uppgjör á lífeyri og tengdum bótum hjá Tryggingastofnun ríkisins. Uppgjörið tryggir að allir fái réttar bætur.  Í heildina eru um 70% lífeyrisþega sem fengu  greiðslur innan eðlilegra frávika. Heildarfjöldi lífeyrisþegar er um 45 þúsund manns. Ellilífeyrisþegar eru um 28 þúsund og örorkulífeyrisþegar um 17 þúsund.