Bandaríska eignastýringafyrirtækið Vanguard er nú níundi stærsti hluthafi Íslandsbanka og ellefti stærsti hluthafi Arion banka eftir lokunaruppboð fyrir uppfærslu á vigt íslenska markaðarins hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell á föstudaginn síðasta. Vísitölusjóðir Vanguard halda nú á yfir 8 milljarða króna hlut í bönkunum tveimur.

Vanguard er komið með 26,1 milljón hluta, eða 1,3% hlut, í Íslandsbanka sem er um 3,15 milljarðar króna að markaðsvirði. Vanguard er nú níundi stærsti hluthafi Íslandsbanki og næst stærsti erlendi hluthafi bankans á eftir Capital Group.

Þá eru vísitölusjóðir Vanguard einnig komnir með 34,5 milljónir hluta, eða um 2,3% hlut í Arion banka sem er yfir 5 milljarðar að markaðsvirði. Fyrir lokunaruppboðið fór Vanguard með um 1,2% hlut í Arion og bætti því við sig yfir eins prósentu hlut í lokunaruppboðinu.