Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að hugmyndir um að festa íslensku krónuna við evruna, líkt og Viðreisn er með á stefnuskrá sinni fyrir kosningarnar, séu „að einhverju leyti vanhugsaðar“ og kalli jafnvel á hærri stýrivexti. Þetta sagði Ásgeir á Reikningsskiladegi Félags löggiltra endurskoðenda (FLE) sem fór fram í lok síðustu viku.

Þar var hann spurður út í kosningastefnu Viðreisnar í lok fundarins. Ásgeir benti á að árið 1989 var krónan tengd við reiknieininguna ECU, körfu gjaldmiðla, sem var síðar skipt út fyrir evruna. Þetta fyrirkomulag gekk á þeim tíma þar sem fjármagnshöft voru þá við lýði á Íslandi en aðstæður væru aðrar í dag.

„Það er í rauninni ómögulegt fyrir Seðlabankann að halda fastgengi við evru,“ sagði Ásgeir og bætti við að hann þyrfti þá að heita öllum gjaldeyrisforðanum til að viðhalda fastgenginu. Algjört samkomulag þyrfti að ríkja við verkalýðsfélögin um að heimta ekki meiri launahækkanir en gerist í Evrópu. Einnig yrði ríkisstjórn að byggja fjárlög út frá því að halda jafnvægi á genginu.

Jafnvel þó þessir þættir næðust, þá yrði enn óöruggt hvort fastgengisstefnan myndi ganga upp, meðal annars vegna hættunnar á að spákaupmenn ráðist á gengið.

Viðreisn leggur í sinni stefnuskrá til að Ísland geri tvíhliða samning við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum. Flokkurinn áætlar að ráðstöfunartekjur heimilanna aukist um 72 þúsund krónur á mánuði á komandi kjörtímabili með því að tengja krónuna við evru, vegna lægri vaxta, vöruverðs og þjónustukostnaðar sem fylgja þeirri gjaldeyrisstefnu.

„Það er alls ekki víst að við fengjum sömu vexti, við gætum fengið hærri vexti, við myndum þurfa að hækka vexti til þess að verja gengið,“ sagði Ásgeir. „Ég held að það sé að einhverju leyti vanhugsað að fara úr verðbólgumarkmiði sem við erum búin að vera með í 20 ár yfir í þetta [fyrirkomulag],“ sagði Ásgeir.

Hann tók þó fram að það væru rök fyrir því að taka upp evruna. Með því fáum við aðild að ESB sem veitir okkur ákveðin réttindi en einnig vissar skyldur. Hins vegar yrði ekki hægt að hreyfa við vöxtum hérlendis.

„Þetta eru bara tvær leiðir: evran, og þá innganga í ESB, eða þá að reka sjálfstæða peningastefnu þar sem við verðum áfram með gjaldmiðilinn okkar.“

Viðreisn vísar til þess að festing krónunnar við evruna yrði hliðstæð gjaldeyrisfyrirkomulagi Dana, sem viðhalda fastgengi við evruna. Ásgeir gefur til kynna að það fyrirkomulag hafi haldist vegna þess að samkomulag ríki um launastig og að fjárlög taki mið af gjaldeyrisstefnunni. „Það veit enginn í Danmörku hvað seðlabankastjórinn heitir. Það er fjármálaráðherrann sem ræður öllu því hann ákveður fjárlögin og hefur þau tæki sem þarf til að bregðast við.“

Erfitt að keppa við framleiðna Þjóðverja

Ásgeir var í kjölfarið spurður nánar út í upptöku evru og þá hvort hún kæmi í raun ekki í veg fyrir hvatavandamál við launaákvarðanir, þar sem ekki væri lengur hægt að styðja sig við peningastefnu til að bregðast við óhóflegum launahækkunum. Ásgeir tekur undir að þetta sé ein helsta röksemdin fyrir upptöku evru því þá væri í raun verið að „knýja íslensku þjóðina að taka ábyrgð á sjálfri sér“.

Hann segir þetta hvatavandamál hafa leitt af sér óðaverðbólguna á Íslandi á sjöunda og áttunda áratugnum. Þá hafi atvinnurekendur gefist upp á að rífast við verkalýðsfélögin, sem leiddi til hækkun launa og gengisfellingu krónunnar á víxl.

Ef evran yrði tekin upp, þá þyrftum við að vera með efnahagsstefnu í samræmi við það sem gerist í Evrópu. Laun íslensks verkafólks þyrfti þá að taka mið af launastiginu í Þýskalandi, sem er ráðandi ríki í evrusamstarfinu. „Sem er mjög erfið viðmiðun því þeir eru framleiðnir andskotar.“ Ef laun yrðu hækkuð meira en annars staðar, þá yrðu íslensk fyrirtæki með meiri kostnað en erlendis, samkeppnishæfni þeirra minnka og viðskiptahalli aukast.

Ráða ekki við verkefnið án samstöðu

Viðræður standa nú yfir hjá aðilum vinnumarkaðarins um lífskjarasamninganna. Í því ljósi endurtók Ásgeir ummæli sín í Þjóðmálum þar sem hann sagði að „enginn mannlegur máttur geti komið í veg fyrir verðbólgu sem verður til með kjarasamningum sem eru umfram þau efni sem eru til staðar“.

Ef samið verður um óhóflegar launahækkanir, þ.e. að laun hækki meira en erlendis, þá muni Seðlabankinn neyðast til að hækka vexti.

„Íslendingar halda að við getum gert miklu meira með peningastefnunni en við getum raunverulega gert. Við ráðum ekki við verkalýðsfélögin. Við ráðum heldur ekki við ríkissjóð. Við erum mjög háð því að þessir aðilar vinni með okkur. Við ráðum ekki við verkefnið ef þeir [vinna ekki með okkur]. Þá lendir Seðlabankinn í þeirri aðstöðu að lenda á milli.“