Ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um flutning Fiskistofu úr Hafnarfirði til Akureyrar er vanhugsuð aðgerð sem mun verða til þess að mikil þekking og reynsla, sem býr í mannauði stofnunarinnar, tapast. Þetta kemur fram í aðsendri grein eftir fyrrverandi fiskistofustjórana Þórð Ásgeirsson og Árna Múla Jónasson, í Fréttablaðið í dag.

Í greininni kemur fram að það skjóti skökku við, að á meðan kröfur um vandaða stjórnsýslu og skynsamlega útdeilingu fjármagns hafi sjaldan verið meiri, þá sé töluverðu opinberu fé varið til að skaða góða og vandaða stjórnsýslustofnun sem Fiskistofa sé.

Þeir Þórður og Árni segja að ákvörðunin hafi þegar skaðað stofnunina verulega. „Þar ríkir nú reiðiblandinn kvíði starfsfólks vegna óvissu um framtíðina, vinnuöryggi og lífsnauðsynlegar tekjur. Sumir eru farnir að leita sér að annarri vinnu og jafnvel þegar farnir í annað starf. Til þess að bæta gráu ofan á svart hefur ráðherra boðið sumum starfsmönnum ívilnun umfram aðra,“ segir í greinininni.