Vanilla er nú dýrari en silfur. Kíló af vanillu kostar nú um 600 Bandaríkjadali, um 60.000 krónur, en kíló af silfri kostar þegar þetta er skrifað um 533 dollara. Ástæða þessara miklu verðhækkana er einna helst sögð uppskerubrestur á eynni Madagaskar austan við Afríku, en 75% af allri vanillu er ræktuð á eynni.

Í frétt á vef BBC segir frá ísgerð þriggja systra, sem hafa gripið á það ráð að kaupa ársbirgðir af vanillu til að tryggja sig gegn verðhækkunum, en vanilla er eins og flestum er kunnugt eitt algengasta bragðefnið í rjómaís. Í sömu frétt segir hins vegar af annarri ísgerð sem vegna verðhækkananna hefur gripið til þess ráðs að hætta að bjóða vanilluís.

Hvirfilbylur gekk yfir Madagaskar í mars og skildi eftir sig slóð eyðileggingar. Í fréttinni segir að vanilla sé unnin úr hinni mjög svo brothættu vanilluorkídeu og að eftir verðhækkanirnar sé vanilla næstdýrasta krydd í heimi. Hún kemst þó varla með tærnar þar sem saffran er með hælana.