Ársreikningur hefur ekki ennþá komið frá 365 miðlum fyrir árið 2010 og samkvæmt ársreikningaskrá er fyrirtækið í vanskilum með þann reikning. „Við erum löngu búin að skila inn reikningi, en ársreikningaskrá taldi á honum vankanta sem við erum að laga núna og munum senda hann aftur innan tíðar,“ segir Ari.

Ari segir að þær hagræðingaraðgerðir sem ráðist hefur verið í undanfarið komi til vegna þess að afkoman árið 2011 var ekki í samræmi við áætlanir. Tekjur hafi verið minni og kostnaður meiri en gert var ráð fyrir. „Áætlanirnar miðuðust við það að efnahags- og atvinnulíf í landinu tæki við sér á seinni hluta ársins og að súrefni kæmi inn á markaðinn. Það rættist ekki. Þá hefur kostnaður, einkum starfsmanna- og launakostnaður aukist,“ segir Ari. Hann segist þó búast við því að hagnaður hafi verið á rekstri fyrirtækisins árið 2011 eins og árið 2010.