*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 24. maí 2018 11:38

Vanmátu Costco-æðið

„Að vissu leyti hefur Costco skilað meiri kjarabótum fyrir almenning en margir kjarasamningar í gegnum tíðina.“

Snorri Páll Gunnarsson
Costco starfrækir 14 þúsund fermetra vöruhús í Kauptúni ásamt bensínstöð með sextán dælum þar skammt frá.
Haraldur Guðjónsson

Á því ári sem bandaríski verslunarrisinn Costco hefur nú starfrækt vöruhús og bensínstöð í Kauptúni í Garðabæ hefur íslensk verslun gengið í gegnum mikla og varanlega kerfisbreytingu. Costco hefur brotið upp kyrrstöðu, tekið til sín vænan skerf á markaðnum og hvatt íslenska kaupmenn til aukinnar samkeppni í verði, gæðum, vörúrvali og þægindum. Heildsalar og matvælaframleiðendur hafa samið við erlenda birgja um lægri innkaupsverð, smásölufyrirtæki hafa fært út kvíarnar og þá hafa mörg fyrirtæki þurft að segja upp starfsfólki vegna Costco.

„Fáir eða engir atburðir í íslenskri verslunarsögu hafa haft jafn víðtæk áhrif og opnun Costco hér á landi,“ segir Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík.

„Að vissu leyti hefur Costco skilað meiri kjarabótum fyrir almenning en margir kjarasamningar í gegnum tíðina.“ Már var einn höfunda skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Zenter árið 2016 um væntanleg áhrif Costco á íslenskan markað. Þar var spáð að Costco myndi umturna íslenskri verslun.

Fimmfalt stærra en íslenska hagkerfið

Það kann að virðast langsótt að eitt 14 þúsund fermetra vöruhús og 16 bensíndælur í Garðabæ hafi burði til að umbylta verslun í öllu landinu. En landnám verslunarrisa á örmarkað getur reynst aðsópsmikið.

Costco er önnur stærsta smásöluverslunarkeðja í heimi á eftir Walmart. Í íslenskum krónum velti Costco 13,5 þúsund milljörðum króna í 741 vöruhúsi í ellefu löndum á síðasta ári. Það er rúmlega fimmföld landsframleiðsla Íslands og þrjátíuföld velta íslenska smásölumarkaðarins. Fyrirtækið býr jafnframt við mun hagstæðari fjármögnunarkjör og í flestum tilfellum hagstæðari innkaupskjör en íslenskar verslanasamstæður.

Ávextir og hjólbarðar lækkað í verði

Meðal þess sem spáð var í fyrrnefndri skýrslu Zenter var að koma Costco til Íslands væri líklegt til að þrýsta niður verði vegna aukinnar samkeppni. Már segir Costco hafa staðist þessar væntingar.

„Það hefur verið verðhjöðnun á Íslandi fyrir utan húsnæði í tæplega tvö ár. En þær vörur sem Costco hefur haft á boðstólum hafa lækkað meira í verði en aðrar vörur. Sumir vöruflokkar hafa jafnvel lækkað um tugi prósenta í verði,“ segir Már. Þar fyrir utan hafi Costco aukið samkeppnisaðhald í gæðum og vöruúrvali.

Sem dæmi um vörur sem hafa lækkað talsvert í verði eftir komu Costco má nefna ávexti og grænmeti, kjötafurðir, raftæki, hjólbarða, hreinlætis- og snyrtivörur, hreingerningavörur og íþróttavörur. Costco er jafnframt með lægsta bensínverðið á höfuðborgarsvæðinu og hefur verðmunur milli bensínstöðva minnkað eftir komu Costco. Vöruframboð Costco er mikið, en Costco „keppir við alla“ þó að samkeppnin sé mismikil eftir mörkuðum og vægi keppinauta á landsbyggðinni.

Már bendir þó á að ómögulegt sé að einangra nákvæmlega Costco- áhrifin svokölluðu, enda hafi margir þættir haft áhrif á hagnaðarhlutföll í verslunargeiranum að undanförnu og hvatt fyrirtæki til hagræðingar. Má þar nefna styrkingu krónunnar, hækkandi launakostnað og aukna netverslun.

Spáðu 50 þúsund viðskiptavinum, en urðu yfir 90 þúsund

Már segir Zenter-skýrsluna þó hafa vanmetið verulega ásókn Íslendinga í Costco.

„Við áætluðum meðal annars út frá könnunum og reynslu annarra markaða að árlegur fjöldi viðskiptavina Costco á Íslandi yrði 50 þúsund í mesta lagi, eða 15% af íbúafjöldanum, og að ársvelta Costco yrði 22 milljarðar króna. Tveimur vikum eftir opnun Costco höfðu 60 þúsund aðildarkort verið seld. Þremur mánuðum síðar var talan komin í 90 þúsund, eða 35% íbúafjöldans. Í Bandaríkjunum er sambærileg tala 26%,“ segir Már.

Í könnun MMR í janúar síðastliðnum sagðist 71% landsmanna vera með Costco kort. Þar af sögðust aðeins 6% ekki ætla að endurnýja kortin sín. Samkvæmt upplýsingum frá Zenter er árleg endurnýjun á aðildarkortum Costco að jafnaði 80-85%.

Varnarviðbrögð, uppsagnir og samdráttur í sölu

Smásalar, heildsalar og matvælaframleiðendur hafa þar að auki þurft að leita margvíslegra leiða til þess að bregðast við komu Costco.

„Ég hef haft spurnir af því að margir stórir heildsalar og matvælaframleiðendur hafa samið við erlenda birgja um lægra innkaupsverð vegna Costco. Svo hafa mörg veitingahús og smærri verslanir farið framhjá heildsölunum og beint viðskiptum sínum til Costco,“ segir Már. Dæmi um slíka framleiðendur og verslanir sem stunda viðskipti við Costco eru Mjólkursamsalan, Ölgerðin, Nói Síríus, Holtakjúklingur, Stjörnuegg, Stjörnugrís og Verslunin Einar Ólafsson.

„Costco hefur því haft töluverð áhrif á heildsala og matvælaframleiðendur, líkt og við gerðum ráð fyrir í skýrslunni,“ segir Már. Þar að auki tengjast uppsagnir hjá Papco, Ölgerðinni og Freyju aukinni samkeppni vegna komu Costco.

Áhrifanna af komu Costco hefur einnig gætt í minni sölu hjá fyrirtækjum í smásölu, heildsölu og framleiðslu. Hagar, stærsta smásölufyrirtæki landsins, sendu frá sér afkomuviðvörun í tvígang á síðasta ári eftir opnun Costco, en velta félagsins á síðasta rekstrarári dróst saman um 8,2% eða 127 milljónir á viku. Atlantsolía, Sláturfélag Suðurlands, ÍSAM, Freyja og fleiri fyrirtæki greindu frá samdrætti í sölu vegna Costco um hálfu ári eftir opnun vöruhússins og matvöruverslun Kosts við Dalveg í Kópavogi var lokað. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: verslun smásala Costco heildsala