Hagvöxtur mældist 2,7% á öðrum ársfjórðungi þessa árs en ekki 1,4% eins og Hagstofan hafði greint frá síðastliðinn föstudag . Í tilkynningu frá Hagstofunni kemur fram að komið hafi í ljós villa um fjármunamyndun á öðrum ársfjórðungi sem leiddi til þess að fjármunamyndun tímabilsins var vanmetinn um 9,1 milljarð króna á verðlagi ársins.

Áhrifin koma fram í tveimur undirliðum fjármunamyndunar, fjármunamyndun hins opinbera og í atvinnuvegafjárfestingu, nánar tiltekið í fjármunamyndun í skipum og flugvélum.  Eftir leiðréttingu mælist 16,6% vöxtur í fjármunamyndun hins opinbera og 26,5% samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu. Samdráttur í heildarfjármunamyndun mælist 9,2%, borið saman við 14,2% samkvæmt áður birtum niðurstöðum.

Landsframleiðsla á fyrstu sex mánuðum ársins jókst því um 0,9% borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2018 en samkvæmt áður birtum niðurstöðum mældist breyting landsframleiðslunnar 0,3% á tímabilinu.

Er þetta í annað skiptið á síðustu dögum sem Hagstofan viðurkennir töluverð mistök í útreikningum sínum á vexti landsframleiðslu. Á föstudag var greint frá því að 0,9% samdráttur hafi orðið á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en í áðurbirtum tölum kom fram að hagvöxtur hafi mælst 1,7% á fjórðungnum. Varð því 2,6 prósentustig munur milli fyrstu talna og uppfærða talna.

Kom skekkjan á fyrsta ársfjórðungi til af því að við gerð þjóðhagsreikninga fyrir 1. ársfjórðung reyndust gögn innihalda upplýsingar um umfang og framvindu byggingarframkvæmda sem náðu yfir lengra tímabil en samsvarar viðmiðunartímabili þjóðhagsreikninga. Með öðrum orðum þýðir þetta að gögn sem að náðu fram yfir 31. mars komu fram í gögnum Hagstofunnar.

Samkvæmt endurskoðun mældist vöxtur íbúðafjárfestingar á 1. ársfjórðungi 22,2% borið saman við 58,4% samkvæmt áður útgefnum tölum. Varð frávikið því 36,2 prósentustig.