Hagfræðideild Landsbankans lítur yfir farin veg og skoðar þjóðhagsspár bæði opinberra og einkaaðila undanfarinna ára í ljósi endanlegra þjóðhagsreikninga fyrir spátímabilin.

„Seðlabanki Íslands gefur út ritið Peningamál með verðbólgu- og þjóðhagsspá sem unnin er af hagfræðisviði bankans fjórum sinnum á ári. Hagstofan birtir spá sem unnin er af deildinni rannsóknir og spár á skrifstofu yfirstjórnar þrisvar á ári (að vori, sumri og vetri). Landsbankinn birtir síðan ritið Þjóðhag með spá Hagfræðideildar bankans tvisvar á ári (á öðrum og fjórða ársfjórðungi),“ segir Hagsjá bankans og bætir við að þessar þrjár spár séu mikilvægastar fyrir lesendahóp sinn.

Niðurstaða samanburðarins er í stuttu máli sú að spáaðilar vanmátu almennt hagvöxt á tímabilinu 2012-2018, en meðalhagvöxtur á tímabilinu var samkvæmt þjóðhagsreikningum 4%. Hvað verðbólgu varðar reiknuðu spáaðilar með meiri verðbólgu en raun bar vitni.

„Verðbólgan fór niður fyrir verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands í febrúar 2014 og hélst þar út árið 2017. Ársverðbólga var við eða undir 2,0% þessi fjögur ár. Enginn aðilanna þriggja spáði fyrir um þetta, en öll fimm árin spáðum við, Seðlabankinn og Hagstofan að verðbólga yrði yfir markmiði í spánum sem þeir birtu á 4. ársfj. árið áður.“