Fjölmargir sérfræðingar hafa gagnrýnt spár um áhrif kórónuveirunnar út frá gögnum um fyrri faraldra sem hafa meðal annars byggt á SARS faraldrinum sem geisaði að mestu í Kína frá nóvember 2002 fram í júlí 2003 og dró 774 til dauða af þeim tæplega 8.100 sem greindust með veiruna.

Tölfræðingurinn Nassim Taleb, sem er höfundur vinsælla bóka á borð við Fooled by Randomness og The Black Swan, sagði m.a. í minnisblaði sem hann skrifaði um útbreiðslu veirunnar að það væri nánast barnaleg nálgun að styðjast við fyrri faraldra þar sem auknar samgöngur gerðu það að verkum að heimurinn væri mun samtengdari en áður.

Því vanmætu spár byggðar á eldri gögnum áhrifin verulega. Þá hefur hann einnig bent á að um sé að ræða viðburð sem ber þau einkenni að ef allt fari á versta veg muni áhrifin verða gífurleg. Hefur hann látið hafa eftir sér að betra sé að aðgerðir stjórnvalda verði umfangsmeiri en tilefni gefi til. „Hægt er að vera vænisjúkur (e. paranoid) og hafa 1.000 sinnum rangt fyrir sér á meðan einstaklingur sem ekki er vænisjúkur getur einu sinni haft rangt fyrir sér og látið lífið,“ segir Taleb.

Hann bendir á að mikilvægt sé að átta sig á því að ekki sé hægt að bera útbreiðslu sjúkdóms saman við bíl- eða flugslys þar sem margfeldisáhrifin af sjúkdómum séu allt önnur og ólínuleg. Þá bendir hann einnig á að það öryggi sem við búum við í flugi í dag sé einmitt afkvæmi „gífurlegrar vænisýki“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .