Ásgeir Bjarni Ingvarsson hreppti 1. sætið í forritunarkeppni TM Software þar sem í fyrstu verðlaun var sumarstarf hjá fyrirtækinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja, móðurfélagi TM Software en 63 tóku þátt í keppninni.

Ásamt sumarvinnunni hlaut Ásgeir Bjarni úttekt í verslun Nýherja Borgartúni. Ásgeir er 1. ársnemi við Háskóla Íslands. Í öðru sæti var Jón Ingi Sveinbjörnsson sem hlaut einnig gjafabréf í verslun Nýherja í verðlaun.

Forritunarkeppni TM Software fyrir háskólanema var haldin nú í þriðja sinn. Að þessu sinni glímdu keppendur við að samþætta upplýsingakerfi. Eftir að lausninni var skilað þurftu þátttakendur að kynna sína lausn og verja hana.