Eitt atkvæði kann að hafa ráðið úrslitum í kosningum í fulltrúadeild fylkisþings Virginíuríkis í Bandaríkjunum að því er kemur fram á vef Bloomberg .

Í kjölfarið á endurtalningu kom í ljós að Shelly Simonds, frambjóðandi Demókrata til fylkisþingsins fékk einu atkvæði meira en frambjóðandi Repúblikana í kosningu um þingsætið. Um er að ræða 94. kjördæmi fylkisins en Simonds fékk 11.608 atkvæði á móti 11.607 atkvæðum David Yancey, frambjóðenda Repúblikanaflokksins. Niðurstöðu endurtalningarinnar á eftir að staðfesta af dómstólum en ekki er gert ráð fyrir að átök verði um niðurstöðuna eða einstaka kjörseðla.

Það sem meira er, er að sigur Simonds hefur í för með sér að Repúblikanir missa meirihluta sinn í fylkisþinginu. Meirihlutinn fellur því aðeins á einu atkvæði en með kjöri Simonds hafa Demókratar jafn marga fulltrúa og Repúblikanir eða 50 á móti 50.

Terry McAuliffe, ríkisstjóri Virginíu fyrir Demókrataflokkinn, segir í samtali við The Associated Press að staðan væri 50 á móti 50. „Og við unnum með einu atkvæði. Ekki segja mér að hvert atkvæði skipti ekki máli,“ segir Terry.

Fyrir kosningarnar hafði Repúblikanaflokkurinn myndarlegan meirihluta í fylkisþinginu 66 þingmenn á móti 34 þingmönnum Demókrata en þeir misstu meirihlutann niður í 51 á móti 49 fyrir endurtalninguna en upphaflegar tölur gerðu ráð fyrir að frambjóðandi Repúblikana hefði unnið með tíu atkvæðum. Nú er staðan eins og áður sagði hnífjöfn fimmtíu á móti fimmtíu.