Baldur Gíslason, nemandi á öðru ári í rafmagnstæknifræði við Háskólann í Reykjavík, bar sigur úr býtum í tölvuinnbrotskeppni HR. Keppnin hefur staðið yfir í nokkrar vikur og segir í tilkynningu að tilgangur hennar sé að kenna næstu kynslóð forritara og yfirmanna tölvufyrirtækja að fyrirbyggja árásir tölvuþrjóta.

Baldur hefur starfað sem forritari í fjölda ára. Keppnin snerist um að brjóta sérsmíðaðan hugbúnað, sem inniheldur í það minnsta fjórar ólíkar tegundir algengra öryggisgalla, í því skyni að komast inn á tölvu. Hugbúnaðurinn, líkt og keppnin sjálf, er þróaður af Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Í tilkynningunni er haft eftir Ými Vigfússyni, lector við Tölvunarfræðideild HR og forsprakka kepnninnar, að tölvuhakkarar séu oft afspyrnugreindir einstaklingar og að markmiðið sé að fá þessa einstaklinga til liðs við þá sem standa að rannsóknum á tölvuöryggi. Spennan sé síst minni þegar staðið er réttu megin við lögin.