Brýnt er að tryggja íslenskum fyrirtækjum aukið aðgengi að verðbréfamörkuðum ef ekki á að verða stöðnun í lífskjörum hér á landi. Þetta segir í skýrslu Kauphallarinnar um virkni íslensks verðbréfamarkaðar sem kom út í dag. Skýrslan var útbúin af Kauphöllinni í samstarfi við markaðsaðila og í henni er að finna tíu tillögur til úrbóta á markaði, sem er ætlað að tryggja aukinn aðgang fyrirtækja að fjármagni.

Í skýrslunni kemur fram að eftir efnahagskreppu hafi bönkum og öðrum fjármálastofnunum verið settar þrengri reglur en áður um starfsemi sína. Afleiðingin sé meðal annars sú að starfsemi þeirra er orðin dýrari en áður, auk þess sem þau hafi úr takmarkaðra lausafé að moða. Fyrir vikið séu útlán þeirra bæði dýrari og ekki eins aðgengileg og áður. Mjög líklegt sé því talið að fjármögnun fyrirtækja, sem ekki hafi greiðan aðgang að fjárfestum í gegnum verðbréfamarkaði, verði enn erfiðari en hún er nú. Það sé því útséð að mikil samfélagsleg verðmæti fari forgörðum verði ekki brugðist við þessari stöðu og íslenskum fyrirtækjum tryggð tækifæri til að fjármagna verkefni sín.

Tíu tillögur Kauphallarinnar

Í skýrslu Kauphallarinnar eru settar fram tíu tillögur til þess að auðvelda fyrirtækjum að sækja sér fjármagn á verðbréfamörkuðum. Kauphöllin telur að þannig megi koma í veg fyrir að tækifæri fari forgörðum og tryggja aukna velmegun hér á landi. Tillögurnar eru eftirfarandi:

  1. Rýmka reglugerð um útgáfu skráningarlýsingar
  2. Heimila öðrum en fjármálastofnunum að útbúa lýsingar
  3. Stytta ferli inn á markað
  4. Staðla skilmála skuldabréfa
  5. Auka fræðslu til markaðsaðila
  6. Auka gagnsæi á túlkun Kauphallarinnar á eigin reglum og viðurlögum
  7. Auka heimildir lífeyris- og verðbréfasjóða til verðbréfalána
  8. Styrkja verðmyndun á skuldabréfamarkaði þegar óvissa er til staðar
  9. Rýmka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga á markaðstorgi með fjármálagerninga
  10. Skattafrádráttur fyrir einstaklinga til hlutabréfakaupa

Væri „umbylting“ í íslensku efnahagslífi

Kauphöllin telur að ef tillögurnar næðu fram að ganga gæti það leitt til aukinnar virkni á íslenskum verðbréfamarkaði. Í samanburði við nágrannalöndin er velta með verðbréf hér á landi hlutfallslega lítil. Aukin umsvif væru líkleg til þess að glæða íslenskt efnahagslíf.

„Samsvarandi virkni hlutabréfamarkaðar hér á landi og í Svíþjóð myndi umbylta vaxtarmöguleikum okkar efnilegustu fyrirtækja. Þau hefðu áþreifanlegan ávinning af því að byggja starfsemi sína upp hér á landi í nánu samstarfi við fjárfesta. Fyrirtæki, sem hingað til hafa talið sig hafa lítið að sækja með skráningu á markað gætu virkjað verðbréfamarkaðinn til fjármögnunar svo um munaði. Tengsl alls almennings við atvinnulífið gætu líka styrkst til muna,“ segir jafnframt í skýrslunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .