Hlutabréfamarkaðir lækkuðu undir lok dags vestanhafs í dag en höfðu hækkað fram eftir degi. Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má rekja lækkanir dagsins til aukinna kreditkortavanskila en þrátt fyrir bjartsýni fjárfesta síðustu daga um að brátt muni rofa til á fjármálamörkuðum eru einstaklingar enn í vandræðum með afborganir og skuldbindingar á kreditkortagreiðslum.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 1,9%, Dow Jones um 0,1% og S&P 500 um 0,4%.

American Express lækkaði um 3,3% eftir að félagið tilkynnti um að vanskil viðskiptavina hefðu aukist um 8% s.l. þrjá mánuði. Það þykir gefa til kynna að enn muni draga úr einkaneyslu vestanhafs auk þess sem önnur vanskil kunna að aukast.

Bandaríkjamenn nota kreditkort með svipuðum hætti og við Íslendingar notum yfirdrátt, þ.e. til að fjármagna til skemmri eða lengri tíma einkaneyslu. Þannig hækka menn úttektarheimild sína hjá kortafyrirtækinu og semja síðan um afborganir.

Um leið og vanskil fara að aukast á þessum afborgunum á Wall Street það til að skjálfa þar sem hætt er við frekari samdrætti eins og fyrr segir.

„Ef það verður framhalda á þessu [auknum vanskilum] þá munum við sjá nánast alla geira lækka hratt. Fólk  mun hætta að verja peningum til rafmangstækjakaupa, húsgagnakaupa og svo framvegis,“ hefur Bloomberg eftir viðmælanda sínum.