Vanskil á neytendalánum hafa aukist verulega í Bandaríkjunum og hafa ekki verið fleiri í 15 ár. Helst er um að ræða vanskil af bílalánum og húsnæðislánum en vanskil af neyslulánum hafa ekki aukist jafn mikið að sögn Bloomberg fréttaveitunnar. Á fjórða ársfjórðung 2007 (sem nýjust tölur byggja á) jukust vanskil umfram 30 daga um 2,65%.

Samkvæmt úttekt American Bankers Association (ABA) þykir þetta gefa vísbendingar um frekari hjöðnun bandaríska hagkerfisins.

Þá hafa greiðslur á kredit kortum og yfirdrætti einnig aukist en meðaltal aukningar á vanskilum af slíkum lánum er 4,4% samkvæmt upplýsingum ABA.

Vanskil af bílalánum hafa aukist um 1,9% og vanskil af húsnæðislánum hafa aukist um 2,9%.

Í gær viðurkenndi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke í fyrsta skipti að samdráttur væri að eiga sér stað í Bandaríkjunum. Þessar tölur þykja staðfesta það að sögn viðmælenda Bloomberg.