Vanskil afborgana af lánum Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) hafa aukist, samkvæmt upplýsingum frá LÍN við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. Hlutfall gjaldfallinna ógreiddra afborgana miðað við stöðu lánasafnsins í loks hvers árs á verðlagi hvers árs hefur farið úr 1,6% árið 2005 í 2,1% á síðasta ári. Þetta hefur m.a. leitt til þess að námslánaskuldir hafa í fleiri tilvikum en áður lent á herðum ábyrgðarmanna.

Viðskiptablaðið greindi frá því í vikunni að LÍN eigi í málaferlum við erfingja Steingríms Hermannssonar , fyrrverandi formann Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Sonur Steingríms af fyrra sambandi tók námslán hjá LÍN árið 1983. Steingrímur var ábyrgðarmaður fyrir láninu. Steingrímur lést árið 2010. Þá var sonur hans enn að greiða af láninu. Það var svo ekki fyrr en síðla árs 2012 sem erfingjar að dánarbúi Steingríms voru látnir vita af því að lánið hefði verið í vanskilum frá í mars árið 2010, mánuði eftir að Steingrímur lést. Skuldin nemur rúmum 12 milljónum króna og vill LÍN að erfingjarnir greiði lánið.

Á myndinni hér að neðan má sjá þróun vanskila hjá LÍN frá árinu 2005 til loka síðasta árs.