Veruleg aukning var á vanskilum hjá innlánastofnunum á öðrum ársfjórðungi samkvæmt tölum sem Fjármálaeftirlitið tók saman í ágúst sl.

Við lok 1. ársfjórðungs höfðu samtals rúmir 30 milljarðar verið í vanskilum lengur en einn mánuð en undir lok 2. ársfjórðungs var upphæðin komin í rúma 66,5 milljarða. Nemur aukningin því 110% á milli ársfjórðunga.

Við lok 2. ársfjórðungs 2007 voru rúmir 19,4 milljarðar í vanskilum og er aukningin því 243% á milli ára.

Þessi mikla aukning hjá bönkunum endurspeglast þó ekki nema að takmörkuðu leyti í fjölda einstaklinga og fyrirtækja á vanskilaskrá sem miðast við þá aðila sem birtar hafa verið stefnur eða dómar vegna vanskila.

Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo hefur hlutfall fyrirtækja á vanskilaskrá aðeins aukist úr 11,8% í 12%.

Hlutfall einstaklinga á vanskilaskrá hefur farið lækkandi frá byrjun árs 2004 þar til nú í ágúst. Um áramótin síðust var hlutfallið í sögulegu lágmarki eða 5,7%, við lok ágústmánaðar hafði það hækkað upp í 5,8% og hafði þá einstaklinum á vanskilaskrá fjölgaði um 615 á átta mánuðum.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .