Vanskil lána á Spáni námu 164,4 milljörðum evra í júní. Þetta er 8,4 milljarða evra aukning á milli mánaða eða sem nemur 9,4% af útistandandi lánum banka og fjármálafyrirtækja á Spáni. Hlutfallið stóð í 8,95% í maí. Upphæðin svarar til 1.200 milljarða íslenskra króna. Til samanburðar nam landsframleiðsla hér í fyrra 1.630 milljörðum króna.

Fram kemur í umfjöllun Reuters-fréttastofunnar um fjárhagsvanda Spánverja að vanskil hafi aukist jafnt og þétt þar í landi eftir að fasteignabólan, sem fékk að malla í áratug, sprakk þar fyrir fjórum árum. Spánverjar glíma við mikinn vanda í efnahagslífinu, landið er í annað sinn á þremur árum komið inn í samdráttarskeið og mælist atvinnuleysi 25%. Reuters-fréttastofan segir ekki útilokað að atvinnulausum eigi eftir að fjölga frekar. Allt farið það eftir því hvernig fram vindur í endurreisn efnahagslífsins. Banka hafa unnið upp á síðkastið að því að endurfjármagna skuldir fyrirtækja til að koma í veg fyrir að þau fari á hliðina.

Reuters bendir á að endurskoðendafyrirtækið PriceWaterhouseCoopers hafi gefið út skýrslu um stöðu vanskila í bankakerfi Evrópu á miðvikudag. Í skýrslunni kemur fram að vanskil hafa tvöfaldast frá árinu 2008.

Vanskil fasteignalána skýrir vanda banka á Spáni að stórum hluta en þeir hafa orðið að færa niður hátt hlutfall fasteignalána sinna. Stjórnvöld leituðu á náðir björgunarsjóðs evrusvæðisins fyrir hönd spænskra banka og fjármálafyrirtækja til að fá 100 milljarða evra lán sem horft er til þess að eigi að bæta eiginfjárhlutfall bankanna.