Vanskil hjá innlánsstofnunum námu 2,2% í lok 2. ársfjórðungs samanborið við 3,1% í ársbyrjun. Vanskil hafa lækkað bæði hjá fyrirtækjum (úr 2,5% í 1,7%) og hjá einstaklingum (úr 5,5% í 4,6%). Í báum tilvikum er átt við vanskil sem staðið hafa lengur en einn mánuð. Þetta kemur fram í tölum sem Fjármálaeftirlitið birti í gær.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að ástæður minnkandi vanskila séu nokkrar. Almennt batnandi efnahagsumhverfi á undanförnum misserum hefur aukið kaupmátt einstaklinga og framlegð í fyrirtækjarekstri. Vextir á innlendum og erlendum lánum hafa verið lágir um hríð, sem hefur létt á greiðslubyrði einstaklinga og fyrirtækja. Hins vegar hefur aukning útlána innlánsstofnana verið mjög hröð sem eitt og sér lækkar vanskilahlutfallið þar sem við bætast lán sem ekki eru í vanskilum. Þá lækkar vanskilahlutfallið einnig að öðru óbreyttu þegar að innlánsstofnanir færa út töpuð lán í bókum sínum. Síðast en ekki síst hafa innlánsstofnanir unnið ötullega að því upp á síðkastið að gegnumkemba lánasöfn sín og bæta allt ferli er varðar lánveitingar og útlánaeftirlit til að minnka útlánatöp en þau hafa haft veruleg áhrif á afkomu t.d. viðskiptabankanna eins og sést hefur í uppgjörum þeirra á undanförnum misserum segir í Morgunkorni.