Vanskil innlánsstofnana sem hlutfall af útlánum voru tæplega 0,7% í lok þriðja ársfjórðungs og hafði hlutfallið hækkað úr rúmlega 0,6% frá lokum annars fjórðungs, eða um 0,05%, segir greiningardeild Landsbankans. Miðað er við vanskil í meira en einn mánuð.

?Vanskilahlutfall bæði fyrirtækja og einstaklinga er lítillega hærra í lok þriðja fjórðungs en í lok annars fjórðungs. Hjá fyrirtækjum er hlutfallið 0,6% en 1,0% hjá einstaklingum. Þegar myndin er skoðuð er rétt að hafa í huga að í lok hvers árs eru færð út endanlega afskrifuð útlán og hefur það áhrif á samanburð fjórða fjórðung hvers árs við aðra ársfjórðunga,? segir greiningardeildin.

?Gagnlegt er að skoða vanskil líka með tímatöf, t.d. til tveggja ára, þ.e. vanskil nú borin saman við útlán fyrir tveimur árum. Ástæðan er m.a. mikil útlánaaukning síðustu ára. Þegar þetta er gert fæst út að vanskilahlutfallið hefur verið nánast óbreytt síðustu þrjá fjórðunga. Hlutfallið nú er rúmlega 2,8% hjá einstaklingum, tæplega 1,4% hjá fyrirtækjum og rúmlega 1,6% samanlagt,? segir greiningardeildin.