Vanskil hafa aldrei verið eins mikil í spænskum bönkum og þau voru í septembermánuði síðastliðnum. Helst er um að ræða húsnæðislán og lán til verktaka á fasteignamarkaði og nema vanskilin 182 milljörðum evra eða 10,7% af öllum eignum spænska bankakerfisins.

Þetta kemur fram í hagtölum evrópska seðlabankans en fjallað er um málið á fréttavef BBC. Spænsk yfirvöld hafa meðal annars brugðist við þessari þróun með því að fresta útburði þeirra sem verst standa fjárhagslega um tvö ár.

Þróun ógreiddra útlána til fasteignakaupa hefur verið með þessum hætti á Spáni síðan árið 2008 og er afleiðing bólu á fasteignamarkaði þar í landi. Veik útlán banka voru andvirði um 17,4% landsframleiðslu Spánar í September og hefur hlutfallið hækkað úr 17,0% í ágúst og 1,5% í lok árs 2007.