Heildarútlán Íbúðalánasjóðs í júlí 2014 námu 659 milljónum króna, en þar af voru 520 milljónir króna vegna almennra lána. Meðalfjárhæð almennra lána var 11,8 milljónir króna. Til samanburðar námu almenn útlán í júlí 2013 796 milljónum króna, að því er fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs fyrir júlí.

Uppgreiðslur námu 2,7 milljörðum króna í júlí en heildarfjárhæð vanskila nemur 7,7 milljörðum króna og lækkar frá sama mánuði í fyrra. Vanskil eða frystingar ná samtals til 10,85% lánasafnsins, en sambærilegt hlutfall í júlí 2013 var 14,37%.

Í lok júlí átti Íbúðalánasjóður 2.091 fullnustueign um land allt og hefur eignunum fjölgað um 37 frá því í lok júní.  Í útleigu voru 947 íbúðir en 981 íbúð er í sölumeðferð.

Í júlímánuði seldi sjóðurinn 53 eignir, en í staðinn bættust 90 eignir við eignasafnið, þar af 23 nýjar fullnustueignir. Nú hafa 255 fullnustueignir bæst í eignasafnið frá áramótum.

Það sem af er ári hefur Íbúðalánasjóður selt 769 eignir en á sama tímabili í fyrra hafði sóðurinn selt 127 eignir. Samtals hefur Íbúðalánasjóður selt 1.652 eignir frá ársbyrjun 2008.